
15 Nov Dýraafurðir og heilsan
Hollt og næringarríkt mataræði skiptir öllu máli þegar það kemur að því að efla og viðhalda heilbrigði líkama og huga. Við vitum væntanlega flest að til að borða á heilsusamlegan máta þá þurfum við að forðast viðbættan sykur og unnar matvörur. Það kemur þó kannski einhverjum á óvart að við ættum líka að forðast flestar, ef ekki allar, dýraafurðir. Af hverju er það?
Rannsóknir hafa sýnt að neysla á dýraafurðum eykur líkur á lífsstílstengdum sjúkdómum eins og sykursýki 2, hjarta- og æðasjúkdómum, sumum tegundum krabbameina og bólgusjúkdómum, eins og iðrabólgu og gigt. Þá erum við ekki aðeins að tala um unnar kjötvörur eins og salami og pepperoni sem hafa skýr tengsl við sjúkdóma, heldur líka kjöt og kúamjólk.
Mettuð dýrafita
Neysla á mettaðri dýrafitu hefur lengi verið tengd auknum líkum á hjarta- og æðasjúkdómum en styttra er síðan hún var tengd við sykursýki 2. Rannsóknir hafa sýnt að mettuð dýrafita eykur ekki aðeins insúlín viðnám í líkamanum heldur hefur líka neikvæð áhrif á beta frumurnar sem framleiða insúlínið. Mettaða dýrafitan er því að vinna gegn blóðsykurstjórnun líkamans á tveim vígstöðvum. Undirliggjandi orsök forstigs sykursýki og svo sykursýki 2 er því ekki of mikil neysla á kartöflum eða brauði, heldur of mikil neysla á mettaðri dýrafitu.
Dýraprótein
“Ok, ekkert mál, ég sker bara fituna af kjötinu og borða fitulausa kúamjólkurafurðir”, hugsar þá kannski einhver. Skiljanlega, en dýrapróteinið er ekki heldur gott fyrir heilsuna.
Aðrar rannsóknir hafa sýnt að þegar við borðum dýra prótein þá framleiðir lifrin í okkur of mikið af hormóni sem er beinlínis krabbameins hvetjandi. Slíkt dýra prótein getur verið steikin sem þú færð þér í kvöldmat eða skyrið sem þú færð þér í morgunmat, en skyr er unnið úr kúamjólk. Sem dæmi má nefna að niðurstöður langtímarannsóknar á próteinneyslu fólks og langlífi sýndu að þeir sem borðuðu mikið af próteinríkri fæðu úr dýraríkinu (halló lágkolvetna!) voru 75% líklegri til að deyja fyrr og fjórfalt líklegri til að deyja úr krabbameini. Ef próteinið kom úr plönturíkinu þá hurfu þessi tengsl. Kjötneysla hefur að auki verið tengd krónískum bólgusjúkdómum eins og IBS og hrörnunargigt.
Kúamjólk
“Ok, ég skipti þá bara kjöti og eggjum út fyrir osta, skyr og próteinduft. Einhvern veginn verð ég að fá prótein” gæti einhver hugsað. Skoðum það aðeins…
Kúamjólk og afurðir hennar eins og ostar, skyr, próteinduft og grísk jógúrt, falla undir umræðuna hér að ofan þar sem þau innihalda dýrafitu og dýraprótein. Að auki hefur neysla á kúamjólk og afurðum hennar tengsl við aukna myndun á bólum sem kenndar hafa verið við unglinga, þ.e. acne.
Að lokum þá bætir neysla á kúamjólk svo við fleiri vinklum þar sem hún inniheldur líka fjöldan allan af hormónum sem ætlað er að stækka kálfinn eins hratt og mögulegt er. Kýr framleiða jú mjólkina til að fæða kálfinn sem þær eru fylfullar af. Þessi hormón eru skaðleg okkur mannfólkinu og auka líkur á brjósta- og blöðruhálskirtils krabbameinum.
Og varðandi mögulegan próteinskort þá er hann ólíklegur. Við eigum það til að ofmeta próteinþörf okkar og vanmeta hversu mikið við fáum af próteinum úr plönturíkinu. Ég mun fara nánar í það í pistli á komandi vikum.
Hvernig á ég þá að borða?
Ef þér finnst þessar upplýsingar vera yfirþyrmandi þá skil ég þig vel. Spurning eins og “hvað á ég þá að borða?” og “hvað á ég að gefa börnunum mínum að borða?” eru mjög eðlilegar eftir slíkan lestur. Þetta er samt allt frekar einfalt, borðum meira af heilu plöntufæði (sjá t.d. hér https://ingunn.is/einfaldar-leidir-til-ad-borda-meira-af-heilum-plontum/) og minna af því sem er kemur úr dýraríkinu. Ef við getum alls ekki hætt að borða kjöt, veljum það þá vel og borðum frekar villibráð eða íslenskt lamb. Forðumst kúamjólkur afurðir eins og heitan eldinn því þær tikka bæði í box mettaðrar dýrafitu og dýrapróteins, og eru unnar matvörur. Þær falla alls ekki undir heila fæðu. Sé það okkur erfitt að sleppa alfarið ostum, próteinstykkjum, grískri jógúrt eða mjólk, þá er auðvelt að velja frekar ámóta vörur úr plöntum. Úrvalið hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og verður ávallt betra. Þó slíkar vörur falli undir unnar matvörur og innihaldi oft einhver aukaefni, þó ekki alltaf, þá eru þær í flestum tilfellum skárri kostur.
Lífið er of stutt til að eyða því í sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir. Við þurfum bara að vanda okkur aðeins og velja það sem gerir okkur sterkari og heilbrigðari. Það gæti þurft átak til að byrja með en ávinningurinn er algjörlega þess virði. Þú átt það skilið að lifa góðu lífi, án sjúkdóma, og geta notið þess eins lengi og þér er mögulegt.
Ps. Viljir þú rannsaka þetta sjálf/ur þá mæli ég með síðunni http://www.nutritionfacts.org en þar má finna umfjöllun um niðurstöður rannsókna með tenglum á rannsóknagreinarnar sjálfar.