08 Jun Máttur þakklætisins
(Færsla birtist upphaflega þann 13. janúar 2013)
Í dag á ein af mínum bestu vinkonum afmæli. Þessi vinkona mín er mér mikil fyrirmynd því hún er með sterkari, greindari og betri konum sem ég þekki. Hún er mér afar kær og ég er afskaplega þakklát fyrir að fá að kalla hana vinkonu mína. Mér þykir því vel við hæfi að velja þennan dag til að stíga fram, út úr rammanum mínum og framhjá óttanum, og blogga um lítið verkefni sem mér hugkvæmdist seint á síðasta ári.
Verkefnið sem slíkt var í raun einfalt og fól einungis í sér að hanna og útbúa armand með orðinu ÞAKKLÆTI. Það ferli sem lá verkefninu að baki var þó ekki eins einfalt eða auðvelt. Áður hafði ég neyðst til að átta mig á að hvorki ég sjálf, né líf mitt, værum á þeim stað sem ég óskaði mér. Ég var óánægð og óhamingjusöm. Það jákvæða við þessa uppgötvun, þrátt fyrir óþægindin sem fylgdu henni, var að ég var sú eina sem hafði valdið til að gera eitthvað í málunum. Ég var sú eina sem gat breytt eigin lífi og þar með aukið eigin hamingju. Nokkrum ákvörðunum, kollhnísum og innskoðunum seinna komst ég á þá braut sem ég ferðast eftir í dag. Braut sem er spennandi, skemmtileg, erfið, áskorandi og full óvissu. Á leið minni að þessari braut komst ég þó að svolitlu merkilegu, nefnilega því hversu kröftug og mögnuð áhrif það getur haft að vera þakklátur í eigin lífi. Rannsóknir hafa sýnt að þau okkar sem eru þakklát í eigin lífi eru að jafnaði bjartsýnni, þrautseigari, afkastameiri, líður betur, iðka frekar líkamsrækt, upplifa minni streitu, hafa sterkara ónæmiskerfi og eru að jafnaði hamingjusamari.
Nokkuð magnað, ekki satt?
Það að vera þakklátur hljómar nokkuð einfalt, en í daglegu amstri og streitu er þó óskaplega auðvelt að gleyma svo dýrmætu viðhorfi. Til að minna sjálfa mig á að vera þakklátari í eigin lífi ákvað ég að láta útbúa fyrir mig ÞAKKLÆTIS-armbandið. Ég ákvað jafnframt að láta útbúa fleiri slík armbönd til að gefa vinum mínum. Og enn fleiri armbönd, svo þeir gætu gefið vinum sínum. Þannig gætu kannski fleiri munað að vera þakklátir og í kjölfarið orðið hamingjusamari. Og hver vill ekki verða hamingjusamari?
Þannig fæddist þetta litla verkefni mitt sem fær að stíga fyrstu skrefin í dag. Á afmælisdegi einnar af mínum uppáhalds.
Ég vona að armbandið gagnist öllum þeim sem fá það að gjöf, eins og það hefur gagnast mér. Ef ykkur langar í ÞAKKLÆTIS-armband, fyrir ykkur sjálf eða vini ykkar, þá endilega hafið samband!
Ást og friður,
Ingunn