29 Sep Regluleg hreyfing fyrir meiri orku
Öll vitum við að við eigum að hreyfa okkur til að halda líkamanum við en vissir þú að regluleg hreyfing getur gefið okkur meiri orku?
Það hljómar kannski öfugsnúið að það að hreyfa sig geti aukið orkuna okkar en það er nú samt sem áður þannig. Hreyfing gefur okkur miklu meira en bara sterkari og úthalds betri líkama þar sem hún getur haft víðtæk áhrif á alla okkar líðan. Sem dæmi má nefna að hún bætir svefn, bætir andlega líðan, dregur úr streitu, er öflugur liðsauki í neyslu á hollri fæðu og getur gefið okkur aukinn daglegan kraft. Þessir þættir auka orkuna okkar til að takast á við dagleg verkefni. Er það ekki eitthvað sem við öll viljum?
Ráðleggingar varðandi hreyfingu gera ráð fyrir 30 mínútum á dag, í miðlungs erfiðri til erfiðri hreyfingu. Það þýðir að við þurfum að reyna svolítið á okkur og ná hjartslættinum upp. Mikilvægt er að hreyfingin sé fjölbreytt og reyni á þol, styrk, liðleika og hreyfanleika, en umfram allt að hún sé okkur skemmtileg. Við erum nefnilega líklegri til að gera það sem okkur finnst skemmtilegt.
Sért þú ein/einn af þeim sem annað hvort átt erfitt með að byrja að hreyfa þig eða byrjaðir af krafti í haust en ert búin/n að missa áhugann þá er þessi fyrirlestur fyrir þig. Hann fjallar um einfaldar leiðir til að koma sér í reglulega hreyfingu og viðhalda henni þegar áhuginn dvínar.