Hvernig væri að prófa?

Hvernig væri að prófa?

Haustlægðirnar eru mættar til landsins í allri sinni ódýrð (mitt nýyrði). Gul viðvörun, rok, úrhelli, slagviðri, slydda, ég gæti haldið lengi áfram… Ég veit ekki með þig, en þegar regnið lemur gluggana hjá mér, dag eftir dag, langar mig fátt annað en hjúfra mig undir teppi og hámhorfa dramatíska sjónvarpsþætti. Jafnvel með eitthvað feitt, salt og sætt að maula. Svona til að hlýja mér og sefa í grámyglu hversdagsleikans. Ef ég drykki áfengi, myndi ég sennilega fá mér eitt hvítvínsglas með.

Ég geri það samt ekki. Ég veit nefnilega að hámhorf, hámát og hreyfingarleysi veikir mig. Það veikir ónæmiskerfið, hugann og andann. Að endingu verður líkaminn veikur. 

Í staðinn vel ég að hreyfa mig daglega. Hlaupa, lyfta, teygja, ganga, hjóla og leika. Stundum í langan tíma en stundum stuttan. Af mikilli ákefð og minni ákefð. Allt í bland.

Ég vel að sleppa feita, salta og sæta mönsjinu og næra líkamann með heilli fæðu. Óunninni og próteinríkri fæðu, sem gefur orku í stað þess að taka hana af mér. Helst þrisvar sinnum á dag. 

Ég vel líka að fara nógu snemma í háttinn til að eiga möguleika á 8-9 klukkustunda svefni – sem tekst samt alltof sjaldan.

Ég vel að taka ákvarðanir á hverjum degi sem efla og styrkja heilsuna mína til langframa. Mjög einfalt, en alls ekki alltaf auðvelt. 

Meirihluti þeirra Íslendinga sem deyja ár hvert, deyja vegna sjúkdóma sem teljast til lífsstílssjúkdóma. Hjarta- og æðasjúkdómar, krabbamein, sykursýki 2 og heilabilun eru dæmi um sjúkdóma sem kallaðir eru lífsstílssjúkdómar vegna þess að okkar eigin lífstíll hefur áhrif á líkur okkar á að fá þá sjúkdóma. Minnkar líkurnar eða eykur þær. Hvað þýðir það?

Það þýðir, að það eru okkar eigin ákvarðanir, ekki genin okkar, sem valda því að líkaminn getur ekki haldið innra jafnvægi sínu, hrörnar og veikist. Það eru hreyfingarleysi okkar, fæðuval, svefnskortur, streita, fíknir og meðvitundarleysi sem valda okkur þessum vandræðum. 

Og við vitum þetta alveg, er það ekki? Þetta eru varla nýjar fréttir fyrir nokkra manneskju. Samt sem áður höfum við sem þjóð sennilega aldrei verið í verra ásigkomulagi. Við erum feitari, þreyttari, streitufyllri og veikari en fyrr. 

Við verðum að horfast í augu við að valið, og þar með valdið, er okkar sjálfra. Við verðum að vera nógu hugrökk að líta í eigin barm, meta raunverulegt heilsufar okkar af heiðarleika og óttaleysi, og grípa til aðgerða. Við berum sjálf ábyrgð á eigin heilsu og það er okkar að efla hana. Eða taka meðvitaða ákvörðun að gera það ekki og taka afleiðingunum. 

Þessi pistill hefur tvíþættan tilgang. Hann er að hluta til fyrir mig, til að skerpa á huganum og minna mig á hver mín markmið eru. Og hann er að hluta til fyrir öll þau sem vilja snúa sínu eigin lífi við. Ef þessar línur eru til þess fallnar að hvetja einhverja áfram og auðvelda þeim að velja vel fyrir sína heilsu, þá gefur það mér mikið. Leiðin er ósköp einföld, þó hún sé ekki alltaf auðveld. 

Hreyfing. Heil og óunnin próteinrík næring. Viðeigandi svefn. 

Ég hvet þig eindregið til að velja heilsuna þín, prófa að forgangsraða þessum þáttum í lífi þínu, þó ekki sé nema í nokkrar vikur, og sjá hvað gerist. Ég held með þér!

Photo by Andrew Heald on Unsplash