14 Sep Hvað þýðir það að vera við góða heilsu?
Þegar rætt er um heilsu og heilsusamlegan lífsstíl dettur okkur flestum í hug hollt mataræði, regluleg hreyfing og kannski góðar svefnvenjur. Rannsóknir hafa þó sýnt að góð heilsa snýst ekki aðeins um líkamlega þætti heldur einnig andlega og félagslega. Samskipti okkar við aðra, tilfinningastjórnun, verkefni á vinnumarkaði, streitustjórnun og andleg iðkun skipta líka máli þegar það kemur að því að meta og efla eigin heilsu.
Ayurveda, systur vísindi jóga og meira en 4000 ára gömul heilbrigðisvísindi, gera einmitt ráð fyrir fjórum grunnþáttum þegar það kemur að heilbrigði mannsins. Þeir grunnþættir eru hollt mataræði, hófleg hreyfing sem hentar viðkomandi líkama, viðeigandi svefn og orkustjórnun. Stjórnun eigin orku snýr þá að þeim leiðum sem okkur eru færar til að viðhalda orkunni okkar og vera í kærleika.
Er það ekki magnað að svo gömul þekking sé í algeru samræmi við rannsóknir nútímans á hvað telst til heilsu og heilsueflingar? Það þykir mér.
Ég hef í fyrri færslum farið yfir einfaldar leiðir til að bæta mataræði (Einfaldar leiðir til að borða meira af heilum plöntum og https://ingunn.is/tharmafloran-og-onaemiskerfid/) en skotheld leið til þess er einfaldlega að borða meira af plöntu fæðu. Þetta er ekkert svakalega flókið, leggja meiri áherslu á ferska ávexti og grænmeti, heilt korn, hnetur, fræ og baunir, sem er stútfullt af vítamínum, andoxunarefnum og trefjum, og fyrir vikið hafa minna rými fyrir unna pakka fæðu.
Hófleg hreyfing og viðeigandi svefn er svo eitthvað sem ég mun fara yfir síðar. Almennt séð er þó mælt með 30 mínútna meðal erfiðri hreyfingu á dag og 7 til 9 klukkustunda svefni.
Þegar það kemur að andlegri og félagslegri heilsu má yfirfæra það á orkustjórnun í ayurveda. Hvernig tekst okkur að almennt að viðhalda orkunni okkar, varðveita hana þegar við á og auka hana þegar hún verður of lítil?
Hér koma nokkrar spurningar sem geta aðstoðað þig við að skoða þína orkustjórnun:
- Hversu oft gerir þú það sem þér finnst skemmtilegt?
- Hvernig og hversu reglulega tjáir þú sköpunarkraft þinn?
- Hvernig og hversu reglulega nærir þú hjarta þitt?
- Hvernig og hversu reglulega gefur þú þér tíma til að slaka á?
- Hvernig og hversu reglulega leikur þú þér i náttúrunni?
- Ertu meðvituð/aður um ósjálfráðu neikvæðu hugsanirnar sem við öll upplifum? Hvað gerir þú við þær?
- Hvernig eru samskipti þín við annað fólk? Gefa þau þér orku eða taka þau frá þér orku? Ef það síðarnefnda, hvað getur þú gert til að breyta því?
- Hvernig gengur þér að setja öðrum mörk? Ef það gengur illa, hvað getur þú gert til að breyta því?
- Hvernig og hversu reglulega ræktar þú vináttu þína við annað fólk?
- Hvernig og hversu reglulega ræktar þú sambandið við maka þinn (ef þú ert í sambandi)?
Þegar þú svarar þessum spurningum heiðarlega fyrir þig vertu þá meðvituð um að það er ekkert rétt eða rangt svar. Þessi listi er ekki tæmandi enda viðfangsefni andlegrar og félagslegrar heilsu gríðarlega víðfeðmt. Þessar spurningar geta þó kannski gefið þér smá innsýn í þína stöðu, eins og hún er í dag. Jafnvel orðið þér hvati til breytinga á einhverju sviði.
Við erum öll ólík, á okkar eigin leið í gegnum þessa gjöf sem lífið er og það er engin ein rétt leið til að efla heilsuna, eða lifa lífinu. Þú ert sérfræðingur í þínu lífi. Þú þekkir þinn líkama best, þekkir þinn huga og tilfinningar best, og ert þar af leiðandi eini aðilinn sem getur ákveðið hvað er þér fyrir bestu. Þín heilsa er á þína ábyrgð og þó það geti verið stundum yfirþyrmandi að bera þá ábyrgð þá felur hún líka í sér gríðarlegt tækifæri. Þú hefur frelsið til að rannsaka eigið líf, velja leiðir til heilsueflingar sem henta þér og finna kraftinn og gleðina sem sú vegferð getur innihaldið.
Gefðu þér þá gjöf að byrja strax í dag að finna þína leið til öflugrar heilsu. Þú átt það svo sannarlega skilið og hver veit, kannski finnur þú stóra fjársjóðinn á því ferðalagi. Varanlega hamingju og friðsæld.