Jóga: Ævafornar leiðbeiningar

Jóga: Ævafornar leiðbeiningar

Flestir kannast við, eða hafa heyrt um, jóga og tengja það við ýmis konar æfingar til að liðka líkamann. Jógastöður eru vissulega hluti af jóga en fæstir vita þó að jóga eru í raun mörg þúsund ára gömul vísindi sem innihalda leiðbeiningar um hvernig skal öðlast innri frið. 

Uppruna jóga má rekja til norður Indlands fyrir fimm þúsund árum en sumir sagnfræðingar telja að þessi vísindi séu í raun allt að tíu þúsund ára gömul. Orðið yoga kom fyrst fyrir í fornum textum veda ritana sem skrifuð voru af spekingum þess tíma. Jóga var iðkað í gegnum ár þúsundin í Indlandi en varð aðgengilegt hinum vestræna heimi á síðustu öld. 

Jóga má skipta í átta þætti og felur ástundun þess í sér að æfa sig í þeim öllum. Þættirnir átta eru eftirfarandi; leiðir til að taka á samskiptum okkar við ytri og innri heiminn ásamt siðferðisgildum (yama og niyama), jógastöður til að efla og halda líkamanum við (asanas), stjórnun öndunar til að efla og viðhalda lífsorkunni (pranayam), vinna með skynfæri (pratyahara), einbeiting (dharana), hugleiðsla (dhyana) og tilvera handan sjálfsins (samadhi). Jógastöður eru aðeins lítill hluti af heildarkerfi jóga en hefur samt sem áður fengið mesta athygli á Vesturlöndum. Það er skiljanlegt þar sem jógastöðurnar eru aðgengilegasti hluti jóga og því einfaldast að byrja þar. 

Fyrstu tveir þættir jóga eru þó mikilvægastir þar sem þeir taka á samskiptum okkar við innri sem ytri heiminn. Þeir færa okkur verkfæri til að líta inn á við, taka á brestum okkar, setja okkur sjálfum og öðrum mörk og koma fram af kærleika og heiðarleika. Langi okkur að bæta líf okkar í heild sinni þá er ekki nóg að gera líkamann sterkari og liðugri. Við þurfum að gera hugann okkar sterkari og verða liðugri í tilfinningum okkar. Við þurfum að skoða innra lífið okkar, samskipti við aðra og framkomu í þessum heimi. Bæði sjáanlega framkomu sem ósýnilega, þ.e. þessa sem fer fram í huganum okkar. Jóga í heild sinni veitir okkur tækifæri til þess. 

Langi þig til að bæta líf þitt þá hvet ég þig til að skoða jóga. Rannsaka þessa ævafornu fræði, finna jógakennara sem þú tengir við og leggja af stað í ferðalag umbreytingar. Það verður kannski ekki alltaf auðvelt en það verður þess virði. Á ferðalaginu gætir þú nefnilega kynnst þér á nýjan máta og fundið það sem við öll leitum að. Tengingu við okkur sjálf og friðsæld í daglegu lífi. 

Pistill birtist fyrst á http://www.heilsutorg.is