Fegurðin í því að ná ekki markmiði sínu

Fegurðin í því að ná ekki markmiði sínu

Haustið 2020 ákvað ég að setja mér háleitara markmið en nokkru sinni fyrr og skráði mig í 106 km utanvega maraþon. Á þeim tímapunkti hafði ég hlaupið þó nokkur hálf maraþon, heilt maraþon og ultra maraþon, og taldi mig, með góðri þjálfun, geta náð þessu markmiði. Næstu átta mánuði æfði ég samkvæmt áætlun, en sú áætlun fól í sér fimm hlaupaæfingar, styrktarþjálfun, þverþjálfun (x-training), hugleiðslur, svefn og næringu. Við allskonar aðstæður, í allskonar veðri og yfir hátíðardaga. Ég hljóp fleiri kílómetra en nokkru sinni fyrr og hugði vel bæði að líkamlegri og andlegri líðan. Ég skipulagði keppnisdag með tilliti til næringar, tryggði að ég væri rétt útbúin, undirbjó hugann og taldi mig algjörlega tilbúna að sigra þessa áskorun. 

En svo gerðist nokkuð óvænt…

Ég gat ekki lokið hlaupinu. Þrátt fyrir allan minn undirbúning þá bara gat ég ekki lokið hlaupinu. Ógleði og svimi sóttu að mér stuttu eftir ræsingu sem þýddi að næringaráætlunin fór út um gluggann. Þegar ég hafði barist hálfa leið, eða 53 km, var mér ljóst að ég varð að hætta keppni. Ég var uppgefin líkamlega og andlega, átti hreinlega ekkert eftir og rétt staulaðist áfram. Það var ekkert sérstaklega erfið ákvörðun og ég var satt best að segja mjög fegin. Vanlíðanin var það mikil. 

Daginn eftir komu þó vonbrigðin. Mér hafði mistekist. Þrátt fyrir að hafa aldrei misst úr æfingu og lagt alla þessa vinnu á mig þá hafði mér mistekist. Tárin brustu fram. En aðeins í stutta stund. 

Ég veit nefnilega að þó mér hafi mistekist þá þýðir það ekki að ég sé misheppnuð. Stundum setjum við okkur markmið og þrátt fyrir að við vinnum að þeim af öllum krafti þá náum við þeim ekki. Það þýðir þó ekki að við eigum að hætta að setja okkur markmið. Stór markmið. Ógnvænleg markmið. 

Stundum gerast hlutirnir ekki alveg eins og við ætluðum þeim. Og það er allt í lagi. Lykillinn er að geta horft á reynsluna okkar sem reynslu. Horft á reynsluna okkar sem tækifæri til vaxtar. Hvaða lærdómur liggur falinn í reynslunni? Hvað getum við lært af því að ná ekki markmiðinu okkar? 

Eins klisjulegt og það hljómar, þá er það nefnilega ferðalagið að markmiðinu sem skiptir öllu máli en ekki endastaðurinn. Getum við lagt af stað, gert okkar allra besta en verið óháð útkomunni? 

Ég hef sett mér nýtt markmið. Háleitt og ógnvænlegt markmið. Með mitt persónulega tap í farteskinu þá er það ógnvænlegra en fyrra markmið. Kannski næ ég því og kannski ekki. Hvort heldur sem verður mun ferðalagið að því fela í sér dýpri fegurð en áður, því ég er reynslunni ríkari.