Þú og þessar milljarða lífvera sem búa inni í þér: Þarmaflóran og ónæmiskerfið

Þú og þessar milljarða lífvera sem búa inni í þér: Þarmaflóran og ónæmiskerfið

Fyrir um fjórum vikum síðan fékk ég það verkefni í hendurnar að þurfa að taka inn sýklalyf. Ég var á ferðalagi og hafði tekist að hlaupa á mig blöðru undir fótinn, ekki beint besti staðurinn fyrir slíkt vesen. Blaðran fékk í sig sýkingu og til að forðast blóðeitrun voru mér ávísuð sýklalyf. 

Nú verður mér vart misdægurt. Eftir að ég varð heil-plöntu-kona (e. whole food plant based), fyrir um fimm árum, þá verð ég hreinlega ekki lasin. Ég man ekki hvenær ég þurfti síðast að taka inn sýklalyf en það eru allmörg ár síðan.

Sýklalyf eru ein af mörgum mögnuðum uppfinningum mannsins en þau eru ekki gallalaus. Við, sem mannverur, erum ekki aðeins þessi líkami sem við sjáum (með huga, tilfinningar, persónuleika og sál) heldur erum við í raun heilt kerfi af allskonar lífverum. Í þörmum líkama okkar þrífast milljarðar af lífverum sem kallast þarmaflóra (e. gut microbiome). Gerlar, bakteríur, vírusar, og fleiri lífverur, lifa inni í okkur og ekki bara sér til gamans heldur líka okkur til gagns.. 

Rannsóknir síðustu ára hafa sýnt að þarmaflóran gegnir gríðarlega stóru hlutverki í heilsu okkar, bæði líkamlegri og andlegri. Þessar lífverur hafa áhrif á meltingu, efnaskipti, hormóna jafnvægi, lunderni, starfsemi heilans og síðast en ekki síst ónæmi. 70% af ónæmiskerfi okkar er staðsett í þörmunum og því ljóst að ónæmiskerfið er samtengt þarmaflórunni. Viljum við styrkja ónæmiskerfið þurfum við því að huga vel að þarmaflórunni. Það gerum við með því að næra hana með trefjum. Trefjum úr heilum plöntum eins og heilkorni, ávöxtum, grænmeti, baunum, hnetum og fræjum. Það er ekki nóg að taka inn trefjar í formi hylkja eða dufts. Það þarf að borða eins fjölbreytta plöntufæðu og hægt er. 

Eins vel og sýklalyf virka til að berjast við óæskilegar bakteríur þá hafa þau þann galla að drepa líka góðu bakteríurnar í þarmaflórunni. Bakteríur sem gegna lykilhlutverki í að efla og viðhalda heilsu okkar. 

Þar sem ég næri líkama minn alla jafna vel, með fjölbreyttri og næringarríkri plöntufæðu, taldi ég mig geta höndlað þessi sýklalyf með annarri hendi…

En nei. Það fór ekki alveg eins og ég átti von á. 

Ég fékk ekki aðeins gríðarlegar meltingartruflanir og lystarleysi, heldur varð ég líka þróttlaus. Ég fékk vöðvaverki og varð almennt ólík sjálfri mér. Hlaupin mín urðu hægari og hafði engan kraft til að framkvæma gæðaæfingar. Smá sjokk, en líka fallegt tækifæri til vaxtar og þroska. Ég varð að læra að byggja líkamann minn, og þarmaflóruna, aftur upp. Við getum byggt þarmaflóruna aftur upp með því að taka inn meltingar gerla (e. probiotics) en það er ekki nóg að taka þá bara inn, við þurfum að næra flóruna líka. Ég byggði mína flóru upp aftur með sterkum skammti af meltingar gerlum, hreinu og fjölbreyttu plöntufæði (lesist óunnar vörur!), nægum svefn og vatni.  

4 vikum seinna er ég orðin eins og ég á að mér. 

Ég hefði aldrei trúað að einn sýklalyfjaskammtur myndi hafa svona mikil áhrif á mig og velti því fyrir mér hvernig öllum þeim sem þurfa reglulega að taka slík lyf líður. Að sama skapi vona ég að sem flestir átti sig á hversu mikilvægt það er að hugsa vel um þarmaflóruna sína með því að borða fjölbreytta og hreina fæðu. Það er ekki nóg að ætla að bæta heilsuna með því að taka inn meltingar gerla og trefjar í hylkjum. Bætiefni gera ekki neitt fyrir okkur ef við borðum bara eitthvað í pakka. Við þurfum að næra líkamann, og þarmaflóruna, með því að borða heilar og óunnar plöntur. Eins og þær vaxa á jörðinni. Eins fjölbreyttar og hægt er. Eins litríkar og hægt er. 

Í staðinn fyrir að telja macro, micro, kolvetni, fitu, prótein eða hitaeiningar þá hvet ég þig til að telja frekar plöntur. Telja hversu margar ólíkar plöntur þú borðar á hverri viku og stefna að a.m.k 30. Að gera það mun ekki aðeins bæta meltinguna þína og auka orkuna, heldur líka styrkja ónæmiskerfið þitt. Það gæti verið það mikilvægasta sem þú gerir núna, á tímum veira og pesta. 

Ps. Viljir þú læra meira um þarmaflóruna mæli ég eindregið með bókinni Fiber Fueled eftir Dr. B – https://theplantfedgut.com