Einfaldar leiðir til að borða meira af heilum plöntum

Einfaldar leiðir til að borða meira af heilum plöntum

Í síðustu viku fór ég yfir mikilvægi þess að hugsa vel um þarmaflóruna okkar þar sem rannsóknir hafa sýnt að hún skiptir öllu máli þegar það kemur að góðri heilsu (sjá hér https://ingunn.is/tharmafloran-og-onaemiskerfid/). Við styrkjum þarmaflóruna með því að næra hana með heilum plöntum, eins fjölbreyttum og okkur er mögulegt að neyta. 

Heilar plöntur er yfirheiti yfir óunnið korn og grænmeti, ávexti, baunir, hnetur og fræ. Það sem vex á jörðinni og er okkur hæft til matar. Til að næra þarmaflóruna þurfum við því að borða meira af því sem er ferskt og óunnið, og minna af því sem er með innihaldslýsingu. Við vitum jú öll að ferskt plöntufæði er hollt á alla kanta þar sem það inniheldur mikið magn vítamína, steinefna og andoxunarefna sem eru líkama okkar svo nauðsynleg. Við vitum vel að við eigum að borða meira af slíku óunnu fæði, og minna af því sem er í poka/kassa/dollu, en samt gleymum við okkur. Dagarnir eru annasamir, upplýsingar misvísandi og stundum er bara of erfitt að ætla að elda næringarríkar máltíðir frá grunni.

Ég hef því tekið saman nokkrar einfaldar leiðir til að aðstoða þig við að næra þig betur með heilum plöntum :

  1. Telja plöntustig

Prófaðu að telja hversu margar ólíkar plöntur þú borðar í einni viku og gefðu hverri tegund eitt stig. Reyndu svo að ná fleiri stigum í vikunni þar á eftir. Þú getur jafnvel prófað að telja stig innan dagsins og reyna að ná fleiri stigum daginn eftir. Ákjósanleg plöntustig fyrir vikuna eru 30 og það er auðveldara en að ná því en þú heldur!

  1. Eitthvað úr öllum flokkum á hverjum degi

Heil korn, grænmeti, ávextir, hnetur, fræ og baunir eru í raun flokkar af plöntum. Reyndu að borða a.m.k eina tegund úr hverjum flokki á hverjum degi og velja svo nýjar tegundir úr sömu flokkum næsta dag. 

  1. Kaupa eitthvað nýtt í hvert skipti sem þú verslar í matinn

Við erum verur vanans og eigum til að borða alltaf sama morgun grautinn eða kvöld salatið. Prófaðu að kaupa einhverja nýja plöntufæðu næst þegar þú verslar í matinn og skella því í grautinn eða salatið. 

  1. Borða grænmeti og ávexti í hverri máltíð

Þú þarft ekki að vera grænmetisæta eða yfir höfuð búin/n að skilgreina næringastefnu þína á nokkurn máta til að borða meira af grænmeti og ávöxtum. Prófaðu að bæta smávegis af grænmeti og ávöxtum við hverja máltíð og kannski uppgötvar þú fyrir vikið einhverja dásamlega samsetningu. 

Að lokum:

Nærri daglega dynja á okkur upplýsingar um hvað sé okkur hollt, og hvað ekki, í formi frétta og umræðna á samfélagsmiðlum. Nýir tískustraumar í mataræði og hollustu sem eiga að koma okkur í toppform, líkamlega og andlega, á skotstundu eru kynntir reglulega. Þetta endalausa upplýsingaflæði á það þó til að gera okkur enn ringlaðri, jafnvel vanmáttug, þegar það kemur að því að velja hvað hentar okkur. Það er því auðvelt að spyrja sig “hvað af þessu virkar eiginlega?”. 

Svarið er í raun ósköp einfalt. Viljir þú eiga öfluga heilsu eins lengi og þér er unnt, er óunnin plöntufæða svarið. Eins fjölbreytt og litrík og þú getur í þig látið. Sértu fyrir dýraafurðir þá gildir það sama um þær, óunnar og villtar, trompa ávallt það sem fæst í pakka/plasti og hefur verið alið í verksmiðju.

Ps. Viljir þú læra meira um þarmaflóruna mæli ég eindregið með bókinni Fiber Fueled eftir Dr. B – https://theplantfedgut.com